fimmtudagur, október 20, 2005

Kæra dagbók!

ATH! Er í öfugri röð!! fyrsti dagur neðst etc..

20.10
Það er alveg magnað hvernig tíminn líður. Í raun er hann að sjálfsögðu einungis til sem hugmynd hjá mannfólkinu. Tíminn. Sekúndur, mínútur og klukkustundir. Mér finnst ég hafa verið hérna lengi en í raun eru einungis 6 dagar frá því ég fór frá Íslandi. 5 dagar frá því ég kom til Cannes. Ég er hægt og rólega að laga mig að lífuni hérna á heimavistinni. Ég hleyp eins og djöfullinn sé á hælunum á mér milli herbergisins míns og sturtunnar í þeirri von að enginn sé á göngunum þegar ég fer þar á milli. Hingað til hefur þetta gengið án óhappa. Ég hef hins vegar þann leiða ávana að skilja alltaf sjampóið mitt eftir í sturtunni og þarf síðan að sækja það þegar ég loksins man eftir því. Til allrar hamingju hefur engum dottið í hug að leggja hald á það.
Ég átti ágætann dag í gær. Einungis morguntími og svo frí í eftirmidaginn. Það bættist í hópinn í gær þegar Paula frá Dallas, Texas kom. Hún býr hérna í Cannes er nýgift manni frá Dubai. Mér skilst að hann sé konungborinn. Hún talar ágæta frönsku en vantar alla málfræði og þess vegna er hún með okkur í 1 hóp. Við fórum eftir tímann, ég og Paula, og fengum okkur hádegismat á einum veitingarstaðnum niðri við ströndina. Það væri ekki orðum ofaukið að segja að við náðum vel saman. Sjaldan og jafnvel aldrei hef ég hitt manneskju sem hefur komist inn að kjarna mínum á jafn stuttum tíma. Það var gott að tala við einhvern sem skilur hvað maður er að tala um og hefur þroska til að ræða málin. Hún hefur sín viðfangsefni líka þannig að þetta var nú ekki alveg einhliða. lol Ég vona að við eigum eftir að eiga fleiri slíka fundi. Hún var að tala um að hún vissi um líkamsræktarstöð hérna nálægt og kannski kíkjum við á það í næstu viku. Hún er reyndar í svolítið öðrum klassa en yðar einlæg, fyrrverandi yfirmanneskja hjá ekki ómerkari fyrirtækjum en Nokia og Pepsi. En býr nú bara með mill(jarða?)jónamæringum manni sínum. Ekki að ég finni fyrir einhverri minnimáttarkennd en það væri nú ekki amalegt að kynnast svona manneskju sem hefur alla þessa reynslu og sambönd ;) lol Eftir hádegisverðinn sem endaði um 3 leytið kom ég heim á herbergi og lagði mig! lol Hef gert nokkuð af því, kom í ljós að þetta var góð áætlun því stúlkan í næsta herbergi sat á spjallinu til kl. 1:30 í nótt og ég var því frekar úldin og illa sofin í morgun, enda svaf ég 'yfir' mig og vaknaði ekki fyrr en kl. 8. Rétt með nægan tíma til að henda mér í föt og í morgunmatinn. Engin sturta. Ekki góð byrjun á degi. Í gær rigndi líka eins og hellt væri úr fötu. Og í morgun og í dag hefur verið léttur úði. Eftir seinni tímann minn fórum við Elisbeth hin norska fótgangandi í bæinn. Ég kíkti í nokkrar verslanir. Fann nú ekki mikið nema handklæði sem mig vantaði og ritföng. Nú skal skrifa bréf... og glósur! :) Ójá, og þá hræðilegustu regnhlíf sem ég hef nokkurn tíma átt! Ætla að reyna að setja inn mynd af henni á eftir. Hún er algert brill og kostaði einungis 4€ sem var það ódýrasta sem fékkst.
Ætla að reyna að komast í Le Cyberdrome á eftir og setja inn þessar færslur og kannski að reyna að koma myndunum eitthvert þar sem þið getið skoðað þær. Sjáum til hvernig það gengur. Í kvöld er líka eitthvert svissneskt kvöld og því verða Crépe í boði á 'le Bar' á eftir. Ætla að kíkja á það á eftir kannski. En nú að fara að hyggja að ferðinni í le CB. A bien tôt!




18.10
Erfitt að trúa að 2 dagar séu búnir af skólanum. Fyrsti dagurinn fór í að raða okkur í hópa eftir getur. Óþarfi að nefna að ég bað um að fá að byrja á byrjun. Hefði kannski getað farið í hóp 2 en held að það sé best að byggja alveg frá grunni, enda nokkur ár frá því ég var seinast að vasast í frönsku. Ég er með 2 kennara,fyrir hádegi og eftir hádegi. Ég fór í fyrsta tímann eftir hádegi í gær, en ég verð alla mán, þri og fim frá 13:30 til 15:30 hjá Christine. Hún kennir okkur málfræði og slíkt. Síðan er alla morgna frá 9 til 12 taltímar hjá Nadine. Hún er lítil hnellin kelling. Talar mjög skýrt og hægt svo að maður skilur hana mjög vel. Það eru ekki allir í tímum eftir hádegi og þess vegna eru þetta 2 hópar sem ég er í. Fyrir hádegi erum við 8. 2 íslendingar, englendingur, finni, norðmaður, japani, úkraníumaður og filipseyjingur. E.h. eru ég, englendingur, rússi og norðmaður. Var líka ein frá filipseyjum en hún færðist upp um bekk í dag.
Ég hélt að ég yrði eini íslendingurinn hérna en þegar var verið að lesa saman bekkina í morgun heyrði ég þá kalla upp einhverja -dóttir aðra en mig, kemur þá í ljós að þetta er 16 ára stúlka sem heitir Jóna og er frá Neskaupsstað. Hún er hérna að æfa með blakliði í Cannes og var að byrja að læra frönsku. Ég skal alveg viðurkenna að þó að ég var búin að segja að ég vonaði að það yrðu engir íslendingar hér þá kom svona smá léttir í mitt hjarta að geta tjáð mig á mínu ástkæra ylhýra máli. Hún býr heldur ekki hérna í skólanum heldur í húsnæði með öðrum stúlkum úr blakliðinu. Þannig að þetta er ánægjulegt. Fattaði ekki hvað ég myndi sakna þess að tala íslensku, enda reyni ég að tauta nokkur frönsku orð á dag og tala ensku þess á milli. Hef þó getað skotið inn nokkrum sænskum orðum, enda er hérna einn eldri sænskur maður, 1 sem er hálf sænsk, hálf svisslendingur og ein au pair stúlkan sem ég hitti á sunnudag er líka svíi. Hver veit nema að ég komi tilbaka altalandi á sænsku og ensku... bíð með að dæma um frönskuna.
Á morgun er ég bara í morguntíma og ég og Elisabeth (norska) ætlum til Nice í H&M. Er mikið farið að langa í sokka og nýjan brjóstahaldara. Svo ekki sé minnst á handklæði enda skildi ég öll slík eftir á íslandi og hef verið að fara mína daglegu sturtu með slå-om-sig slæðunni minni og hún er aðeins farin að láta á sjá! lol
Ég veit, ég veit. Maður pakkar niður handklæði en ég hélt í alvöru að það yrði ekki stórmál að komast yfir eins og eitt handklæði hér á sólarströndinni. Ekki svo gott. En það kemur allt á morgun.
Ég er búin að kynnast mörgum hérna, hér kemur svolítil uptalning fyrir sjálfa mig svo vinsamlegast skrunið yfir ef þið viljið,

Raphael, Alex, Nadia, Giovanne (Sviss), Anne, Jin (Kórea), Jeannette, Katy, Tanya (Þýskaland), David (Liverpool!), Alex, Caroline (Filipino), Ékatarina (Rússland), Elisabeth, Mia (Norge), Inga (finnland), Larry, JOhn, Jessie, Jean, Claire, Lindsay (usa), Carl, Marie (Svíþjóð)... svo ekki sé minnst á alla sem ég er að gleyma!

En það er kominn matartími hérna, svo ég ætla að sjá hvaða cousine þeir eru að bjóða upp á í kvöld! Alveg brilliant þessi matseðill,á hádegi í gær var hakk og spaghetti, sem er allt í lagi og í desert var einhvers konar brauðkaka með smjörkremi á milli (þarf ekki að taka fram að ég át það ekki). Í gærkveldi var croissant með skinku og osti og kalt kartöflusalat og vínber í desert. Í hádeginu í dag var kjúklingaleggir og kartöflur. Bíð spennt eftir samsetningu dagsins.

kl. 22:05

Jæja, kvöldmatur búinn. Stóðst væntingar mínar, að því leyti að hann var stórskrítinn. Var einhvers konar kjöthakk í klöttum, kartöflumús sem var búið að sprauta úr rjómasprautu og setja í ofn, leit út eins og svona litlar kranskakökur eins og eru alltaf til hliðar með stóru kökunni. Í desert var síðan einhvers konar jógúrt/búðingur sem heitir fjord. Smakkaðist örlítið eins blanda af hreinu jógúrti og óhrærðu skyri, en út í þetta er settur sykur og/eða hunang. Ég smakkaði mitt óblandað! Var ágætt en myndi ekki vilja borða heila dollu. Franski gæðamaturinn er alla vega ekki borinn fram í þessum skóla!! lol
Fór líka aðeins á netið. Er samt soldið óþægilegt þar sem það eru bara tvær tengingar fyrir lappa og báðar uppteknar. Ég varð þess vegna að fara í 'almenninginn' sem er s.s. allt í lagi ef ekki væri fyrir franska lyklaborðið. Margir stafir á vitlausum stöðum og svona! A er t.d. þar sem q ætti að vera, þú þarft að setja á CAPS ef þú ætlar að gera tölustafi og fl. ofl. En alla vega ég skrifa þessa dagbókapunkta bara á notepadinn í lappanum og svo ætla ég að setja þá inn næst þegar ég get tengt lappann minn. Þá reyni ég kannski að klambra inn þessum 10 myndum eða svo sem ég er búin að taka! lol Ok, ég veit ég þarf að vera duglegri að taka myndir. Er bara enn að venjast því að vera með myndavél sem ég þarf ekki að spara myndirnar í vegna framköllunarkostnaðar. Þetta kemur allt saman. Ég er nú þegar t.d. búin að taka fleiri myndir á 4 dögum en síðustu 4 árum eða svo þannig að þetta eru þvílíkar og stórstíga framfarir ;) Held ég ætli að láta þetta duga að sinni. Meira seinna.


16.10

Cannes, Frakkland.


Er núna búin að vera hérna í 2 daga. Er enn dálítið týnd, en er allt að koma til. Eyddi gærdeginum í að labba um miðbæ Cannes. Miðbærinn virðist miðast við Hotel de Ville og smábátahöfnina. Það er nóg af veitingstöðum og eitthvað af búðum. Ég er ekki búin að kynna mér það nægilega. Ætla mér að kíkja til Nice sem fyrst í H&M. Enda þarf ég að verða mér út um handklæði tout suite. Vill nefnilega svo til að ég skildi handklæðin eftir heima. Sem er reyndar hvergi eins og er. Hélt að það yrði nú ekki mikið mál að finna eins og eina búð með handklæði en enn sem komið er hef ég ekki rekist á neina. En það er búð við strandgötuna sem selur alls konar flip flops og slíkt þannig að kannski selja þeir handklæði líka. Kíki á það á morgun eftir skóla.
Er reyndar að fá svolítið shokk yfir þessum skóla því það virðast allir vera að læra hérna og það er sunnudagskvöld. Ég hélt nú ekki að ég væri að fara í svo alvarlegt nám að það krefðist heimavinnu og var reyndar búin að ákveða að það væri ekki málið... Við sjáum hvað setur.

Kynntist í dag 5 au pair stúlkum. 4 þýskar og 1 sænsk. Hef á tilfinningunni að þýskan mín eigi eftir að batna :) Er líka kósý stemming í matsalnum, sem ég komst loksins til að borða í eftir að hafa sofið af mér kvöldmatinn í gær. Maður bara sest á næsta lausa borð og kynnir sig.. eða það gerði ég alla vega. Það er serverað á borðin þannig að það þýðir enga feimni heldur er málið að setjast á næsta lausa borð. Auðvitað eru einhverjar klíkur í gangi en mér sýnist þetta allt vera prýðisfólk.
Hlakka til á morgun þá byrjar ballið. Þetta byrjar á kynningu í fyrramálið kl. 9 síðan þarf maður að taka stöðupróf. Hlakka reyndar ekki til þess enda geri ráð fyrir að mér skipað í hóp með þeim sem hafa enga frönsku lært. Er samt að æfa mig með nýju bókinni sem ég keypti áður en ég fór að heiman. Hún heitir 'Made in Iceland' og er svona samtalsbók, með frösum og almennum setningum eins og 'Pourrez-vous parler plus lentenment' sem þýðir 'Gætirðu talað hægar' sem ég hef tilfinningu fyrir að ég þurfi að hafa á takteinunum næstu daga og jafnvel vikur.

Hvað sjálfa mig varðar þá er ég í einhverju limbói. Veit ekki alveg hvernig mér líður. Er svona einhvern vegin ekki alveg að kaupa að þetta sé alvara. Að ég sé loksins komin hingað. Hingað þá verandi þessi byrjunarreitur sem ég hef þráð í dágóðann tíma. Mér finnst ég vera alveg á byrjunarreit. Veit ekki alveg hvernig ég vil vera og svona. Er í annað fallið hrædd um að týna mér í einhverjum pælingum og missa af þessari reynslu. Verð að passa mig að falla í hópinn, ekki bara sitja ein og segja nei takk. Ég gerði það næstum því í dag með au pair stelpurnar en sagði síðan bara já.. það var ekkert vont! Við sátum á ströndinni og töluðum aðeins saman. Ég er samt sjálfsagt ekki besti félagsskapurinn þar sem ég dett út af og til. Er í einhverjum einkaheimi þar sem enginn er nema ég.

Á morgun verður okkur s.s. skipt upp í bekki eftir getu og þá hef ég betra tækifæri til að kynnast fólki. Flestir sem ég hef séð eru yngri en ég, en einhverjir á svipuðum aldri. Ég sat hjá einni stúlku, Elodie (veit ekki hvernig skrifað en sagt svona), við kvöldmat og hún hefur verið hérna í 1 ár áður og kom síðan aftur í september og verður fram í júní þannig að það virðist vera eitthvað af fólki hérna sem er búið að vera hérna í einhvern tíma.

Ætla að reyna að setja inn einhverjar myndir á eftir.. ef ekki búin að taka þær margar, en nokkrar. Veit síðan ekki hvor mér tekst að koma þeim á netið en við sjáum til. Best að hella sér í það bara.

ása