þriðjudagur, nóvember 15, 2005

Blogg frá 10.10 ÁKVÖRÐUNIN

10.10

Jæja góðir hálsar, það er ýmislegt búið að gerast frá því ég skrifaði síðast. Skólinn hefur gengið vel og veðrið hefur verið gott. Ég hef verið að hugleiða lífið, tilveruna og allt það undanfarna daga. Ég er búin að komast að eftirfarandi niðurstöðu. Ég ætla að yfirgefa Cannes.
Ok, ok, ok. Ég heyri ykkur úr hinum og þessum landshornum hvá yfir þessu. Leyfið mér því að útskýra. Ég lá uppi í rúminu mínu á þriðjudaginn að hugleiða [sjá byrjun texta!] og allt í einu skaut einni hugsun í kollinn á mér. Af hverju er ég hérna? Ég varð vægast sagt undrandi yfir að hafa hugsað þetta en leyfði mér að halda þessari hugleiðingu áfram. Ég gerði mér allt í einu grein fyrir því að ég hef ekki hugmynd um afhverju ég er hér. Ég veit afhverju ég fór frá Íslandi, en afhverju er ég enn HÉRNA? Ég er ekki með heimþrá og kysi helst að koma ekki heim alveg strax, en hvað er ég að gera í Cannes. Skólinn er ágætur og ég kann vel við mig, en ég gæti verið hvar sem er annars staðar. Ég fór því að hugsa hvað ég vildi gera ef ég væri ekki hérna.
Ýmsar hugmyndir komu upp í huga minn. Ein af þeim, og mín uppáhalds, var að ég gæti farið og heimsótt Bryndísi í Noregi. Ég gæti líka farið til Englands og heimsótt Friðrik og Vigdísi, mér datt meirað segja í hug að kíkja til Völu í Cardiff. Og allt í einu fattaði ég að ég gæti gert þetta. Allt þetta eða eitthvað allt annað. Það eina sem hindrar mig er mitt eigið ímyndunarafl. Ég hef því tekið þá ákvörðun að ég mun ekki vera hérna í Cannes í mánuð í viðbót. Og reyndar ætla ég að reyna að finna flug héðan um helgina. Þá ætla ég til Noregs til Bryndísar, sem mér hefur ekki tekist að heimsækja í þau 2 ár sem hún hefur búið þar, og þar sem hún kemur ekki heim um jólin þetta árið þá verður þetta eins og litlu jólin hjá okkur.
Ég veit að einhverjum ykkar gæti fundist þetta vitleysa í mér, en þið verðið bara að eiga það við ykkur sjálf. Ég held ég sé búin að skoða þetta mál frá þeim hliðum sem skipta mig máli og þetta er niðurstaðan. Það er ótrúlegt hvað maður hefur alltaf áhyggjur af því hvað öðrum finnst og hvað aðrir halda. Ég geri það alla vega. Ég var meirað segja að íhuga að vera hérna 2 vikur í viðbót bara svo enginn myndi segja neitt við mig. Svo ákvað ég að gera það ekki. Lífð er of stutt til að lifa eftir því sem maður heldur að aðrir séu að hugsa um eða fyrir mann. Ég veit ekki hvort einhver á eftir að líta á þessa ákvörðun mína sem auðvelda undankomuleið. Ég held hins vegar ekki. Auðveldast væri fyrir mig að vera hérna.
Ég held ég sé bara búin að fá út úr þessari dvöl minni hérna það sem ég þurfti að fá, eða eins mikið og ég get fengið hérna. Nú er mál að komast að því hvort ég er tilbúin að takast á við lífið eftir 'limbó' því lífið hérna í Cannes er ekki beinlínis í tengslum við raunveruleikann. Ég ætla því að leggja land undir fót og ætla að byrja í Noregi. Síðan fer ég til englands í lengri eða skemmri tíma. Ég ætla bara að spá í það eftir helgina. Mér liggur ekkert á. Ég geri hins vegar ráð fyrir að koma heim í desember, hugsanlega aðeins fyrr en ég ætlaði upphaflega.
Auðvitað er fullt af ástæðum fyrir því að ég er að fara héðan, en engin þeirra ef meiðandi eða sár. Ég held bara að ég sé tilbúin að takast á við hvað sem kemur næst.