þriðjudagur, mars 07, 2006

La La Napoule


IMG_0219, originally uploaded by Ása Björg.

Jæja,

Kannski kominn tími til að blogga smá. Ætla að reyna að gera það í gegnum blogger.com en ef það gengur ekki þá fylgir einhver mynd með, þið vitið bara af því.

Ég hef einhvern vegin ekki haft neitt að segja undanfarið og því ekki nennt að hafa fyrir því að blogga. En nú loksins er kannski eitthvað að gerast.

Ég var s.s. í viðtali í dag fyrir ótrúlega spennandi starf. Það er inni á Akureyri. Þetta er starf sem myndi þjóna metnaði mínum, sem ég er búin að komast að að er harður húsbóndi. Ótrúlegt hvað hann getur stjórnað manni. Ýmsir kostir við þetta starf og jafnvel kostur að þetta myndi krefjast 6-8 vikna starfsþjálfunar í Reykjavík. Þannig að ef þið hafið 1-2 mínútur aukreitis þá megiði endilega senda jákvæða strauma til mín því mig langar virkilega í þetta starf.

Það er líka í farvatninu annað starf hérna á Dalvík. Ég er ekki búin að fá formlegt boð og ekki er alveg víst hvort þarf að auglýsa starfið eða ekki. Þetta starf stendur undir mörgum kröfum mínum sem ég fór af stað með. Þarna kæmist ég í tengsl við samfélagið og kynnist fólki. Ágætur vinnutími og sanngjörn laun. En... shit hvað ég væri til í hitt starfið.

Lífið á Karlsrauðatorgi gengur sinn vanagang. Það sem hefur kannski brotið þessa viku aðeins upp, fyrir utan viðtalið í dag, er að tengdamóðir mín er búin að vera veik frá því á föstudag. Hún er með skólagæsluna fyrir Dalvíkurskóla og einhver verður víst að hugsa um börnin, þannig að við skötuhjúin höfum staðið vaktina í Kofanum í gær og í dag. Það er gaman af þessum skinnum sem koma og þau eru ljúf og auðveld svona að mestu. Þetta er líka ágætis tilbreyting.

Ég var að gera mér grein fyrir því fyrir nokkrum dögum síðan að ég hef ekki unnið núna í að verða hálft ár! VÁÁÁÁ! Ég hætti s.s. hjá Pennannum í lok ágúst í fyrra. Og nú er kominn mars! En þetta er búinn að vera góður tími. Ég fór náttlega út í 2 mánuði og svona þannig að það er ekki eins og ég hafi verið bara að slæpast í allann þennann tíma en þetta er lengsti tími sem ég hef verið án atvinnu frá því ég lauk stúdentsprófi. Ég hef lengst hingað til verið atvinnulaus í 2 mánuði þegar ég hætti hjá John Lindsay og byrjaði hjá Pennannum.

Jæja, þá læt ég þetta duga í bili, kem með uppfærslu um leið og eitthvað bitastætt gerist, eða fyrr ef þetta dregst eitthvað. En ég á nú von á því að heyra af þessu fyrir helgi.

Ása vongóð